Ísafoldarprentsmiðja
Stofnuð 16. júní 1877
Saga prentunar á Íslandi er samtvinnuð þeirri þörf að koma fréttum og öðru rituðu máli á framfæri til lesenda. Hægt er að rekja samfellda sögu prentunar á landinu allt aftur til ársins 1526 er Jón biskup Arason flutti fyrstu prentsmiðjuna til landsins, en hún var í byrjun sett niður á biskupssetrinu að Hólum í Hjaltadal.
Elsta starfandi prentsmiðja landsins er Ísafoldarprentsmiðja. Stofndagur hennar er miðaður við að 16. júní 1877 var prentað fyrsta eintakið af blaðinu Ísafold, en prentsmiðjunni var komið á fót til að prenta það blað. Víkjum sögunni aftur til þjóðhátíðarársins 1874. Það ár kom Björn Jónsson frá Djúpadal frá námi í háskólanum í Kaupmannahöfn, þar sem hann hafði stefnt að embættisprófi í lögum. Þegar hann hvarf frá námi frá háskólanum hafði hann þó tekið þá ákvörðun að hætta við lagastörf og í stað þess að fara hina hefðbundnu leið að gerast embættismaður dönsku stjórnarinnar ákvað hann að hasla sér völl á sviði stjórnmálanna og jafnframt að koma á fót nýju blaði á Íslandi.
Björn Jónsson var fæddur 8. október 1846. Foreldrar hans voru þau Jón bóndi Jónsson í Djúpadal og kona hans Sigríður Jónsdóttir. Þetta ár komu út þrjú blöð í Reykjavík. Þetta voru fréttablöð, og voru kölluð dagblöð þótt þau kæmu sum hver aðeins út einu sinni í viku eða á tveggja vikna fresti.
Elsta blaðið var þá Þjóðólfur, sem hafði komið út í tuttugu ár undir ritstjórn Jóns Guðmundssonar, en hafði skömmu áður verið selt séra Matthíasi Jochumssyni, hinu þekkta þjóðskáldi. Annað blað var Tíminn, sem hætti útkomu nokkru síðar og loks Víkverji, en stofnandi þess og aðalritstjóri var Jón Jónson landshöfðingjaritari. Töluverður munur var á þessum tveimur blöðum. Blað Jóns Guðmundssonar, Þjóðólfur, hafði einkennst af löngum greinum og miklum fróðleik. Víkverji, blað Jóns ritara, en svo var hann almennt kallaður, var mun meira í takt við tímann og flutti fréttir af hinu daglega lífi auk þess sem það var fyrst blaða til að flytja auglýsingar frá kaupmönnum.
LEYFI FRÁ KONUNGI
Á þessum tíma hagaði svo til að enginn mátti eignast prentsmiðju hér á landi nema hafa til þess leyfi frá Danakonungi. Björn sótti um slíkt leyfi og fékk það 3. júlí 1876. Björn pantaði prentsmiðju frá Kaupmannahöfn og átti hún að koma til landsins vorið 1877. Síðasta blað Ísafoldar sem prentað var í Landsprentsmiðjunni, er dagsett 26. maí 1877 og er þess þá getið að von sé á prentsmiðjunni fljótlega. Útkoma blaðsins sem venjulega var vikublað, dróst um þrjár vikur, því prentsmiðjan kom með póstskipinu 7. júní. Með skipinu kom einnig Sigmundur Guðmundsson, sem ráðinn hafði verið yfirprentari, en talið er að hann hafi annast kaupin á prentsmiðjunni fyrir Björn ytra þótt þess sé raunar hvergi getið í blaðinu.
Prentsmiðjan stofnuð
Prentsmiðjan var sett fljótlega upp á heimili Björns, í Doktorshúsinu, í stórri stofu í norðausturendanum og kom fyrsta blað Ísafoldar, prentað í þessari nýju prentsmiðju, út 16. júní 1877, og verður því að telja þann dag afmælisdag prentsmiðjunnar. Hún hefur því starfað nú í 133 ár.
Prentvélin í þessari nýju prentsmiðju Ísafoldar var svokölluð handpressa, þótt hraðpressur væru þá orðnar algengar í útlöndum. Prentlistin var heldur ekki komin á hátt stig hér á landi á þessum tíma, sem sést best á því að öll prentsmiðjan rúmaðist í einni stofu á heimili Björns.
Klemens Jónsson landritari sem skrifaði söguágrip á 50 ára afmæli Ísafoldarprentsmiðju 1927, lýsir vel prentun í þessari prentsmiðju: Allt prentverkið rúmaðist í einni stofu. Þar voru fyrst og fremst setjararnir. Allir lærlingar byrjuðu á að læra setningu og unnu aðallega að henni allan námstímann. Þegar setningu var lokið var byrjað á prentun. Unnu að henni tveir menn. Var annar svonefndur ,,bullari”, hann bar svertuna á letrið. Var það erfitt verk kraftalitlum unglingi. Því ,,bullan” , sívalningur úr gúmmí, var þung fyrir, einkum er henni var strokið um svertuborðið til að drekka í sig svertuna. Hinn var sjálfur þrykkjarinn. Hann lagði örkina í pressuna, þrýsti síðan efri plötunni niður á letrið og tók hana úr pressunni aftur. Talið var að alvanur og duglegur prentari gæti prentað 250 eintök á klukkutíma. Það þurfti mikið átak til að annast sjálfa prentunina í handpressunni.
FLUTT Í AUSTURSTRÆTI
Í upphafi blaðamennsku sinnar hafði Björn Jónsson gert sér grein fyrir því að sjálfstætt blað verður að eiga eigin prentsmiðju, eftir að hafa rekið sig á það allóþyrmilega að hafa orðið að sæta ritskoðun. Vegna endurtekinna flutninga á prentsmiðjunni var það einnig ljóst að prentsmiðja verður að eiga eigið húsnæði.
Hann keypti svonefnt Lambertesenhús í Austurstræti 8. Það hús lét Björn rífa upp úr nýjári 1886 og reisa þar á lóðinni tvílyft hús með háu þaki. Gekk smíðin svo vel að hann gat flutt þangað í júlílok um sumarið. Í fyrsta blaðinu sem prentað er á nýja staðnum, 31. tölublaði, dagsettu 29. júlí stendur: Ísafoldarprentsmiðja og afgreiðslustofa er í nýja húsinu á milli Austurvallar og Austurstrætis. Vegna flutnings á prentsmiðjunni m. m. hefur útkoma þessa blaðs dregist einn dag. Þetta tölublað af Ísafold var því hið fyrsta sem prentað var í Ísafoldarhúsinu, sem svo var kallað, og var prentsmiðjan rekin á þessum stað allt fram á fimmta áratug þessarar aldar.
ARFTAKI ELSTU PRENTSMIÐJA LANDSINS
Á árinu 1886 á sér stað annar merkisatburður, en þá kaupir Björn Jónsson prentsmiðju Einars Þórðarsonar sem keypt hafði rekstur Landsprentsmiðjunnar 29. desember 1876. Með þessu var Ísafoldarprentsmiðja orðinn arftaki tveggja af elstu prentsmiðjum landsins, Hólaprentsmiðju og Hrappseyjarprentsmiðju og því má segja að saga þeirra renni saman við sögu Ísafoldar. Þannig byggir Ísafoldarprentsmiðja á 471 árs grunni.
Tíu árum síðar verða enn tímamót í rekstri Ísafoldar, 1897 pantar Björn Jónsson nýja hraðpressu frá Englandi, sem talin var mjög fullkomin á þeirra tíma mælikvarða. Fylgdi henni steinolíuhreyfill til að snúa henni og var reist lághýsi við austurgafl prenthússins til að hýsa nýju vélarnar. Hér með hafði tæknin haldið innreið sína af fullum krafti í prentun á Íslandi. Nú þurftu menn ekki lengur að prenta með handaflinu einu saman. Nýr okugjafi var kominn til sögunnar og afköstin jukust stórlega því hreyfillinn gat snúið vélinni miklu hraðar en nokkur mannshönd. Hér var Ísafoldarprentsmiðja brautryðjandi og frá þessum tíma og lengi síðan var þetta stærsta og nafnkunnasta prenstmiðja á landinu.
STARFSEMIN AUKIN
Með auknum afköstum var hægt að færast meira í fang. Bókaútgáfa, sem hófst þegar á árinu 1876, var aukin og jókst ár frá ári. Um leið var nauðsynlegt að prentsmiðjan kæmi sér upp bókbandsvinnustofu og síðar bókaverslun. Tímarnir breyttust og starfsemin færðist sífellt í aukana. Ekki var lengur unnið einungis við eigin verkefni, heldur að margs konar verkefnum fyrir aðra. Starfsemi prentsmiðjunnar margfaldaðist samhliða því að prentiðnin í landinu færði stöðugt út kvíarnar og svara varð stöðugt vaxandi eftirspurn eftir prentun.
Nýrra véla var aflað jafnt og þétt og boðið var upp á fjölbreyttari leturtegundir en áður hafði þekkst í prentsmiðjum á landinu.
PRENTUN MORGUNBLAÐSINS
Þegar Ísafoldarprentsmiðja var tæplega fertug tók hún að sér prentun Morgunblaðsins, sem var stærsta og erfiðasta verkefni sem hún hafði færst í fang. Níu mánuðum síðar skall svo fyrri heimsstryrjöldin á, en hún hafði mjög lamandi áhrif á alla atvinnustarfsemi í landinu, og þóttust allir góðir að geta klórað í bakkann. Prentsmiðjan stóð þetta allt af sér og hélt áfram að vaxa.
Björn Jónsson hafði þegar hér var komið sögu hætt beinum afskiptum af rekstri prentsmiðjunnar, en hann varð ráðherra á árinu 1909 og hætti þá jafnframt sem ritstjóri Ísafoldar. Ólafur sonur hans tók við ritstjórn blaðsins og rekstri prentsmiðjunnar. Kom það því í hans hlut að stýra blaðinu og prentsmiðjunni þessi erfiðu ár fyrri heimstyrjaldarinnar.
BREYTT Í HLUTAFÉLAG
En það átti ekki að liggja fyrir Ólafi Björnssyni að vera lengi við blaðaútgáfu. Haustið 1917 veiktist hann og varð að draga síg í hlé og fór utan eftir nýjár 1919. Hann fékk nokkurn bata og sneri heim um vorið. Snemma árs 1919 voru bæði blöðin, Ísafold og Morgunblaðið, seld nýju hlutafélagi um blaðaútgáfu og var ætlunin að Ólafur Björnsson tæki við ritstjórn beggja blaðanna og þau yrðu prentuð í Ísafoldarprentsmiðju eins og áður. En hér fór öðru vísi en ætlað var, því skömmu eftir af Ólafur Björnnson steig af skipsfjöl eftir utanferðina varð hann snögglega veikur og lést 10. júní 1919.
Ísafoldarprentsmiðju var breytt í hlutafélag í júní 1919. Það voru erfingjar Björns Jónssonar og Ólafs sonar hans, nánustu vandamenn og vinir þeirra sem mynduðu þetta hlutafélag. Fyrstu stjórn þess skipuðu Sveinn Björnson, síðar fyrsti forseti Íslands, og var hann formaður, Ólafur Johnson stórkaupmaður og August Flygenring kaupmaður í Hafnarfirði. Herbert Sigmundsson var framkvæmdastjóri Ísafoldarprentsmiðju fram til ársins 1930 er Gunnar Einarsson tók við starfi framkvæmdastjóra, en hann gengdi því starfi fram á mitt ár 1955 þegar hann hóf rekstur eigin fyrirtækis. Við starfi hans tók Pétur Ólafsson, þáverandi stjórnarfomaður félagsins
PRENTSMIÐJAN FLUTT Í ÞINGHOLTSSTRÆTI
Þótt bætt hafi verið við húsakynnin í Austursræti fór að þrengja að starfseminni og því var á árinu 1941 farið að huga að endurnýjun og stækkun á húsnæði fyrir prentsmiðjuna. Í því skyni er húseignin Austurstræti 10 keypt með það í huga að stækka þáverandi aðstöðu við Austurstrætið. Má sjá í fundargerð aðalfundar fyrir árið 1941 að þá hafi verið ráðgert að húsið yrði fullgert fyrir áramót. Var húsbyggingin samþykkt með bréfi frá borgarstjóra 12. mars 1941.
Horfið var frá uppbyggingu í Austurstræti í ársbyrjun 1942 en þess í stað var hafist handa við byggingu á húsi fyrir prentsmiðjuna í Þingholtsstræti 5. Morgunblaðið keypti prentvél þá sem notuð hafði verið til prentunar blaðsins og starfrækti hana áfram í húsinu við Austurstræti um árabil, eða þar til að hún var flutt í nýbyggingu Morgunblaðsins við Aðalstræti. Við flutninginn í Þingholtsstrætið sköpuðust allt aðrar og betri aðstæður til reksturs og á 100 ára afmælinu 1977 störfuðu 40 manns við prentsmiðjuna, sem þá er bæði með blýprentun og offsetprentun auk þess að reka bókbandsstofu. Ísafoldarprentsmiðja var þá einnig alhliða útgáfufyrirtæki og rak auk þess bókaverslun Ísafoldar, þar sem 5 manns störfuðu. Þótt prentsmiðjan hafi verið flutt í Þingholtsstrætið var skrifstofan áfram í Austurstrætinu fram til ársins 1976, enda bókaverslunin rekin á sama stað. Ísafoldarprentsmiðju hefur haldist vel á starfsfólki í áranna rás. Á hundrað ára afmælinu var elsti starfsmaðurinn, Ólafía Ólafsdóttir, búin að starfa þar í 49 ár og Guðmundur Gíslason í 41 ár, en þar áður höfðu þeir Þórður Magnússon og Gísli Guðmundsson starfað þar í tæp 70 ár.
NÝIR EIGENDUR
Nýir eigendur komu að rekstri Ísafoldarprentsmiðju á árinu 1982. Þá keyptu þeir Leó E. Löve, Jón Guðmundsson og Birgir Páll Jónsson ásamt fleirum rekstur Ísafoldarprenstmiðju. Um áramótin 1993-1994 verða enn eigendaskipti á prentsmiðjunni, er Frjáls fjölmiðlun hf. keypti rekstur Ísafoldarprentsmiðju og er prentsmiðjureksturinn sameinaður rekstri prentsmiðju Frjálsrar fjölmiðlunar, sem hafði áður keypt prentsmiðjuna Hilmi hf.. Sú prentsmiðja var til húsa í DV-húsinu í Þverholti 11. Rekstur bókaútgáfu Ísafoldar og bókaverslunar var seldur í hendur annarra aðila.
Samhliða því að kaupa prentsmiðjurekstur Ísafoldarprentsmiðju voru keyptar húseignir Hampiðjunnar við Þverholt 9 og Brautarholt 1, samtals liðlega sex þúsund fermetrar. Þangað var þessi sameinaða prentsmiðja flutt og var rekin undir nafni Ísafoldarprentsmiðju. Prentsmiðjan nýtti liðlega tvö þúsund fermetra undir stafsemi sína.
Samhliða flutningunum í Þverholt 9 var vélakostur aukinn og var Ísafoldarprentsmiðja mjög vel tækjum búin til alhliða prentunar. Megináherslan var lögð á blaða- og tímaritaprentun í rúlluprentvélum.
FLUTT Í GARÐABÆ
Í byrjun árs 2001 var farið að þrengja að starfsemi prentsmiðjunnar í Þverholtinu sérstaklega blaðavélinni sem þurfti stækkunar við og einnig vegna strangra reglna um hávaðamengun því í næsta nágrennni við prentsmiðjuna var íbúðarhúsnæði og mátti ekki keyra vélarnar þegar komið var fram á kvöld nema með miklum tilkostnaði í hljóðeingangrum. Þá var farið að leita að hentugu húsnæði og fannst það í Molduhrauni í Garðabæ. Húsnæðið að Suðurhrauni 3 hentaði þá í alla staði mjög vel fyrir rekstur prentsmiðjunnar, þar er öll vinnsla á einu gólfi nema forvinnslan sem er á 2. hæð. Húsnæðið er um 2500 fm. að stærð. Starfsmenn eru um 70 talsins.
NÝIR EIGENDUR
Í júní 2002 keyptu Kristþór Gunnarsson og Kjartan Kjartansson Ísafoldarprentsmiðju. Á svipuðum tíma komu nýir eigendur að Fréttablaðinu. Samkomulag varð milli eigenda prentsmiðjunnar og Fréttablaðsins að stofna saman félag um kaup á nýrri blaðaprentvél. Hið nýja félag fékk nafnið Prent.Í lok árs 2003 yfirtók Ísafoldarprentsmiðja rekstur Prents.
NÝTT HÚSNÆÐI
Vorið 2006 flytur Ísafoldarprentsmiðja endanlega í nýtt húsnæði að Suðurhrauni 1. Gerðar hafa verið umfangsmiklar endurbætur á húsinu ásamt töluverðri stækkun, en húsið losar nú 7000 m2. Samhliða flutningunum hefur vélakostur enn verið aukin verulega, þar má nefna stækkun á blaðaprentvél, ný arkavél frá Heidelberg, Speedmaster 74 og ný heatset prentvél frá Man Roland, Rotoman. Heatset vélin er hrein viðbót því minni vélin Octoman er enn í notkun. Einnig hafa verið keyptar nýjar bókbandsvélar, þar munar mest um tvær öflugar heftivélar af gerðinni Heidelberg ST300, nýr Polar beinskeri, þessar vélar eru hrein viðbót við afkastagetu í frágangi, allt miðar þetta að sem skemmstum vinnslutíma í stærri upplögum sem óneitanlega fylgja heatsetprentun.
KAUP Á THINK
Í september 2008 kaupir Ísafoldarprentsmiðja rekstur prentsmiðjunnar Think. Tilgangur með þessum kaupum var að bæta þjónustuframboðið enn frekar. Með tilkomu Think, gat prentsmiðjan boðið upp á stafræna prentun og mun fjölbreyttari arkaprentun. Jafnframt bættist í hópinn öflugt lið starfsmanna frá Think.
ÖNNUR STÆRSTA PRENTSMIÐJA LANDSINS
2008 er Ísafoldarprentsmiðja orðin önnur stærsta prentsmiðja landsins. Á árinu 2009 hófst prentun á bókakiljum hjá Ísafoldarprentsmiðju. Með tilkomu nýrrar fræsilínu og ýmissa annara tækja til vinnslu á kiljum gat prentsmiðjan boðið upp á samkeppnishæf gæði á góðu verði. UV lökkun og fólíugylling er t.d. ný tækni hjá okkur sem býður uppá enn glæsilegri prentgripi.
UMHVERFISVOTTUÐ PRENTSMIÐJA
Stjórnendur og starfsmenn prentsmiðjunnar hafa lengi hugað að náttúrunni og sent allt það sem af fellur í framleiðslunni til endurvinnslu. Sá pappír sem notaður er kemur frá umhverfisvottuðum pappírsframleiðendum. Í nóvember 2010 hlaut Ísafoldarprentsmiðja vottun Svansins - Norræna umhverfismerkisins.
SAMFELLD PRENTUN Í
145 ÁR
Ísafoldarprentsmiðja hélt upp á 147 ára afmæli sitt, 16 júní 2024
Þrátt fyrir háan aldur hefur prentsmiðjan aldrei verið eins vel búin til að takast á við stór og flókin verkefni.
Við þökkum öllum viðskiptavinum okkar fyrir trygg viðskipti og starfsfólki okkar fyrir vel unnin störf.
Við horfum björtum augum til framtíðarinnar